Svissneski bankinn Credit Suisse hefur ákveðið að rukka fjármálastofnanir sem vilja geyma innlán í bankanum um gjald fyrir það. Þetta kemur fram á vef Wall Street Journal.

Venjan er að bankar greiði vexti fyrir innlán og því er þetta mjög óvanalegt.

Ástæðan er sú að Credit Suisse á erfitt með að koma peningunum í vinnu og því er líklegt, að sögn WSJ, að innlánin kosti bankann.

Einstaklingar þurfa ekki að greiða gjald fyrir innlán og njóta þeir örlítilla innlánsvaxta.

Stýrivextir í Sviss er nánast núll en seðlabankinn landsins reynir með því að koma í veg fyrir að fjárfestar færi sig úr ótryggari myntum, svo sem evrum, yfir í frankann í þeirri von að koma peningunum sínum í öruggt skjól.

Sérfræðingar telja ólíklegt að ákvörðun Credit Suisse muni minnka eftirspurn eftir svissneska frankanum, jafnvel þó aðrir bankar í landinu fari sömu leið.

Óvissan á evrusvæðinu hefur heldur aukist en minnkað á evrusvæðinu. Nú síðast með ósk Spánverja um neyðaraðstoð úr neyðarsjóði ESB og lækkun lánshæfismats Frakklands fyrir skömmu.