Bankaráð Landsbankans hefur ákveðið að byggja nýjar höfuðstöðvar við Austurhöfn í Reykjavík. Í tilkynningu sem bankinn send frá sér sér í vikunni kemur fram að skoðaðir hafi verið ýmsir kostir í húsnæðismálum í savinnu við KPMG og Mannvit verkfræðistofu. Niðurstaðan úr þeirri vinnu var að ákjósanlegast væri að byggja við Austurhöfn.

Stefnt er að því að byggja 16.500 fermetra hús og er áætlaður kostnaður um 9 milljarðar króna að lóðarverði meðtöldu. Bankinn hyggst hins vegar aðeins nýta sér hluta hússins eða um 10 þúsund fermetra og þá aðallega efri hæðir hússins. Eru rökin þau að fermetraverð þess hluta hússins sé sambærilegt fermetraverði á skrifstofuhúsnæði á öðrum "góðum stað" á höfuðborgarsvæðinu.  Þetta þýðir að um 6.500 fermetrar á neðri hæðum, verðmætustu hlutar hússins, verða seldir eða leigðir út. Sá hluti hússins gæti nýst vel fyrir verslanir eða aðra þjónustu.

„Að teknu tilliti til þess að bankinn mun selja og/eða leigja 6.500 m2 er gert ráð fyrir að kostnaður bankans við þann hluta hússins sem hann mun nýta verði um 5,5 milljarðar króna.  Á móti kæmi söluverðmæti þeirra fasteigna sem bankinn getur selt við flutningana, " segir í tilkynningunni.

Þrjú ár að byggja

Höfuðstöðvar bankans í Kvosinni eru nú í 13 húsum en aðeins fjögur þeirra eru í eigu bankans. Í dag er starfsemin á 21 þúsund fermetrum og stór hluti húsnæðisins nýtist afar illa að því er segir í tilkynningunni. Bankinn er því að far úr 21 þúsund fermetrum í 10 þúsund. Forsvarsmenn Landsbankans áætla að árlegur sparnaður vegna flutninga á starfsemi bankans verði um 500 milljónir króna á ári.

Eftir á að hanna nýja húsið og en þegar því verður lokið munu framkvæmdir geta hafist. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins gæti framkvæmdir hafist í lok þessa árs eða á næsta ári. Áætlaður byggingartími er síðan um þrjú ár. Ef allt gengur að óskum ætti bankinn að geta flutt árið 2020 eða 2021.

Landsbankinn keypti lóðina við Austurhöfn í maí árið 2014 af Situs ehf., dótt­ur­fé­lagi Reykja­vík­ur­borg­ar og rík­is­ins. Kaupverðið, byggingaréttur og gatnagerðargjöld, nam 957 milljónum króna. Kaupin ollu nokkru fjaðrafoki á sínum tíma. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, gagnrýndi meðal annars bankann fyrir að ætla að byggja höfuðstöðvar einungis fimm árum eftir að bankinn fór þrot.

Hugmyndir um höfuðstöðvar á þessum slóðum kviknuðu reyndar enn fyrr. Því í lok árs 2003 sendi Björgólfur Guðmundsson, þáverandi formaður bankaráðs Landsbankans, Alfreð Þorsteinssyni, formanni borgarráðs bréf, þar sem óskað var eftir viðræðum um framtíðarlóð fyrir bankann austan Pósthússtrætis og sunnan Geirsgötu. Bankinn eignaðist lóð við höfnina árið 2006. Efnt var til hönnunarsamkeppni en öll áform um uppbyggingu runnu úti í sandinn í kjölfar bankakreppunnar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .