Fjárhagsleg endurskipulagning Keahótela er komin mjög langt á leið. Ef fer sem horfir verður félaginu tryggð fjármögnun fram yfir sumarið 2022 samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Núverandi hluthafar munu koma með „umtalsverða“ fjármuni að félaginu. Auk þeirra mun viðskiptabanki Keahótela, Landsbanki Íslands, koma að fjármögnuninni. Ef viðræður ganga í gegn mun Landsbankinn koma með frekara lánsfé í félagið sem og hlutafé og verður því einn af eigendum hótelsins. Stærstu kröfuhafar Keahótela eru annars vegar leigusalar og hins vegar Landsbankinn.

Hluthafasamsetning núverandi eigenda Keahótela mun að sögn viðmælenda verða tiltölulega óbreytt, fyrir utan aðkomu Landsbankans, en endanleg niðurstaða liggur ekki fyrir. Keahótel hafa náð samkomulagi við alla fyrrverandi leigusala um áframhaldandi leigu að Exeter hótelinu undanskildu og mun það hótel því ekki lengur heyra undir Keahótel. Um er að ræða hefðbundið fullnaðaruppgjör. Festi og Mannverk eru eigendur húsnæðisins og er gert ráð fyrir hótelrekstri í húsnæðinu en engar frekari upplýsingar liggja fyrir.

Samningar við leigusala kveða á um lágmarksleigu sem og veltutengda leigu. Að sögn viðmælenda eru samningarnir með þeim hætti að félagið er í stakk búið að takast á við viðvarandi óvissutíma á ferðamannamarkaði. Niðurstaðan er talin ásættanleg og ætti að öllu óbreyttu að tryggja félaginu framhaldslíf. Leigusalar Keahótela eru nokkrir. Þar má hvað helst nefna Reiti, Regin og FÍ fasteignafélag.

Samkvæmt Creditinfo eru Keahótel í fullri eigu K acquisition ehf. en að baki því félagi standa Kea Pt LLc sem eiga helmingshlut, JLKeahotel Investor LCC sem eiga fjórðungshlut og Erkihvönn ehf. sem á fjórðungshlut. Erkihvönn er í eigu íslenskra fjárfesta en hin tvö félögin eru í eigu bandarískra fjárfesta.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .