Muni erlendir aðilar kaupa Íslandsbanka geta þeir ekki selt íslenskum aðilum bankann aftur næstu fimm árin samkvæmt bréfi sem kröfuhafar Glitnis sendu stjórnvöldum síðasta mánudag. Skilyrðið mun vera komið frá kröfuhöfum til þess að fá sem mest virði af sölu bankans til erlendra aðila. Greint er frá þessu í Fréttablaðinu .

„Þú sérð það nú bara á þessari tilkynningu sem er á vefnum hjá ráðuneytinu að þar eru menn að undirgangast það að bankinn verði ekki í eigu innlendra aðila að minnsta kosti næstu fimm árin,“ segir Páll Eiríksson, sem situr í slitastjórn Glitnis, í samtali við Fréttablaðið.

Guðrún Johnsen, stjórnarmaður í Arion banka og lektor í fjármálum við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, segir í samtali við Fréttablaðið að jákvætt sé að erlendir aðilar eignist hlut í íslenskum bönkum. „Fyrir utan jákvæð áhrif á hugsanlega meiri fjölbreytileika í stjórnum bankanna þá er það svo að ef bankar lenda í vanda getur komið upp sú staða að hluthafar þurfi að leggja þeim til fé. Það yrði þá erlent greiðsluflæði inn í landið,“ segir hún.