Ásgeir Jónsson seðlbankastjóri hefur sent frá sér stutt myndband þar sem hann útskýrir þá ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands sem Viðskiptablaðið sagði frá í morgun um að lækka vexti um 0,25 prósentur, niður í 2,75%.

Í myndbandinu er hann bæði spurður út í ákvörðunina og efnahagshorfurnar sem hann svarar þannig:

„Ástæðan fyrir lækkuninni eru verri horfur í útflutningi sem að þá leiðir til minni hagvaxtar. Á sama tíma erum við að sjá betri verðbólguhorfur og þetta tvennt, betri verðbólguhorfur og lægri útflutningur, kallar á þessa vaxtalækkun sem við sjáum núna,“ segir Ásgeir.

„Það sem er jákvætt við þessa spá er tvennt. Í fyrsta lagi að þrátt fyrir minni útflutning, þá er viðskiptajöfnuðurinn ekki að minnka. Hann er jafnvel að aukast og það stafar af minni innflutningi og auknum sparnaði í landinu. Í öðru lagi eru heimilin ekki að taka á sig áfall vegna þessarar niðursveiflu. Við erum að gera ráð fyrir auknum kaupmætti heimilanna næstu þrjú árin og efnahagslegum stöðugleika. Framhaldið veltur á því hvað gerist. Bankinn getur lækkað vexti meira ef horfur versna enn frekar. Við verðum að sjá hvernig framhaldið verður.“