Íslandsbanki var fyrsti einkabanki landsins, og á sér yfir 100 ára sögu. Hann hefur gengið undir ýmsum nöfnum, tvisvar verið í einkaeigu, tvisvar í ríkiseigu og þrisvar farið í gjaldþrot. Nú eru uppi áform um að hefja sölu hans til einkaaðila á ný, en þau hafa reynst afar umdeild. Verði hann seldur verður það í þriðja sinn sem hann lýtur því eignarhaldi undir nafninu Íslandsbanki.

Íslandsbanki var stofnaður þann 7. júní 1904, aðallega með dönsku hlutafé, en einnig norsku. Þann 3. febrúar 1930 fór bankinn svo í gjaldþrot eftir að Alþingi hafði afturkallað peningaprentunarvald hans og gefið Landsbankanum, og Alþingi svo hafnað neyðarbeiðni um ríkisábyrgð. Bankinn var endurreistur af ríkinu sem Útvegsbankinn, og undir því nafni og eignarhaldi starfaði hann næstu 60 árin.

Einkavæðing, nafnbreyting, ris og fall
Árið 1987 var bankanum breytt aftur í hlutafélag eftir gjaldþrot í kjölfar Hafskipsmálsins svokallaða, og þremur árum síðar sameinuðust Útvegsbankinn, Iðnaðarbankinn, Alþýðubankinn og Verslunarbankinn undir nafninu Íslandsbanki.

Bankinn fór í útrás og stækkaði hratt eins og aðrir íslenskir bankar á árunum fyrir hrun, og árið 2006 var nafninu breytt í Glitnir. Hann varð að lokum fyrsti íslenski bankinn til að falla. Í nóvember sama ár var öll innlend starfsemi bankans flutt í Nýja Glitni, sem var að fullu í eigu ríkisins, og árið eftir tók bankinn upp nafnið Íslandsbanki í þriðja sinn.

Hugarfar og mannkostir stjórnenda aðalatriðið
Síðustu misseri hefur mikið verið rætt um fyrirætlaða skráningu bankans á markað og sölu ríkisins á eignarhlut sínum, enda svo til óþekkt í þróuðum lýðræðisríkjum að ríkið eigi tvo þriðju hluta bankakerfisins. Ýmsir álitsgjafar hafa stigið fram og sett sig upp á móti sölunni, ýmist á þessum tímapunkti, eða yfirhöfuð og alfarið.

Gylfi Zoega, hagfræðiprófessor og nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabankans, stígur varlegar til jarðar í grein í vikuritinu Vísbendingu í janúar og bendir á að saga bankastarfsemi hér á landi sýni að ríkisbankar geti ekki síður orðið gjaldþrota en einkabankar.

Rekstur ríkisbankanna frá hruni hafi gengið betur en gömlu ríkisbanka 20. aldarinnar oft og tíðum, en það regluverk sem sett hafi verið um bankastarfsemi á síðustu árum hafi einnig girt fyrir mikið af því sem gerðist árin fyrir hrun.

Þegar upp sé staðið sé aðalatriðið að þeir sem stjórni bankanum hafi hag bankans sjálfs í huga, en ekki hvernig megi beita honum í eigin þágu.

Nánar er fjallað um málið í tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út á dögunum. Hægt er að skrá sig í áskrift hér .