Iðnaðarbankinn eyddi talsverðu púðri í það árið 1988 að auglýsa nýja vöru sem fékk heitið bankabréf. Bréfin áttu að gefa þeim sem keyptu bréfin ársávöxtun um og yfir 10% umfram verðbólgu. Þetta voru heilmiklar væntingar, ekki síst í skugga mikilla væringa í efnahagslífinu á þessum tíma. Árið á undan var svokallað skattleysisár í tengslum við upptöku staðgreiðsluskatts, kaupmáttur hafði aukist um næstum 29% tvö árin á undan og þenslan í hagkerfinu gífurleg.

Þá mældist verðbólga 7,2% í byrjun árs 1988 og stóð hún í 7,9% að meðaltali til loka árs 1992. Það var í þessu efnahagsumhverfi sem Iðnaðarbankinn ákvað að setja bankabréf á markað. Nafnverð bréfanna var 50 þúsund krónur og var hægt að leysa út út hvenær sem var. Bankinn gerði allt hvað hann gat til að hjálpa fólki að spara, en tekið var fram í auglýsingum um bankabréfin í dagblöðum að vantaði fólk þá fjárhæð sem kostaði að kaupa bréfin þá var hann tilbúinn til að hlaupa undir bagga og finna sparnaðarleiðir að markinu.

Bréfin voru líka auglýst í sjónvarpi. Í sjónvarpsauglýsingu bankans gekk Hallmar Sigurðsson leikari um og fækkaði fötum á sama tíma og hann lýsti því sem hann kallaði nokkrar einfaldar staðreyndir um bankabréf Iðnaðarbankans og þann góða ávöxt sem þau gáfu. Undir auglýsingunni drundi nokkuð hraður djass, sem átti engan vegin við annars rólyndislegt yfirbragðið á auglýsingunni.

Þegar Hallmar hafði lýst öllum þeim kostum sem prýddu bankabréfin lagðist hann á leðurklæddan stálbekk samkvæmt því flottasta í tískunni árið 1988 og sagði bankabréfin áhyggjulausa leið til ávöxtunar. Tveimur árum eftir að bréfin voru kynnt sameinaðist Iðnaðarbankinn Útvegsbankanum, Verslunarbankanum og Alþýðubankanum saman undir merkjum Íslandsbanka.

Pistillinn birtist í Viðskiptablaðinu 3. júlí 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn tölublöð.