Veltuhlutfall 365 miðla er lágt vegna þess að bankinn, lánveitandi fyrirtækisins, hefur þrýst á hraða niðurgreiðslu lána, að sögn Ara Edwald, forstjóra fyrirtækisins. Morgunblaðið segir frá því í dag að endurskoðandi 365 miðla bendi á það í uppgjöri fyrir síðasta ár hversu lágt hlutfallið er. Veltuhlutfallið er mælikvarði á hversu líklegt fyrirtækið er til að standa straum af skuldum sem þarf að greiða á komandi ári. Það var 0,6 um síðustu áramót. Alla jafna er miðað við að það sé ekki lægra en 1. Ari segir það nú komið upp í 0,7.

Morgunblaðið hefur upp úr ársreikningnum að stjórnendur 365 miðla geri ráð fyrir því að félagið sé rekstrarhæft um fyrirsjáanlega framtíð þrátt fyrir lágt veltuhlutfall. Endurskoðandinn segir hins vegar að gangi áætlanir ekki eftir gæti ríkt vafi á rekstrarhæfi félagsins.

Ari segir í samtali við Morgunblaðið engin ný tíðindi í orðum endurskoðandans, áritunin hafi staðið í ársreikningnum undanfarin ár. 365 miðlar hafi greitt niður um tvo milljarða af langtímalánum sínum á síðastliðnum þremur árum. Það jafngildi nokkurn veginn öllum rekstrarhagnaði félagsins á þessu árabili.