Sverrir Berg Steinarsson, eigandi Árdegis, segir að það hafi verið Landsbankinn sem stýrði ferðinni við söluna á BT til Haga. Tryggvi Jónsson hafi komið fram sem starfsmaður bankans í málinu.

,,Ef það hefði staðið til að selja þetta til Haga eða einhvers annars aðila hefði ég sjálfur haft frumkvæði að því. Það þurfti ekki milligöngu bankans í því máli enda er ég með símanúmer Finns Árnasonar, forstjóra Haga.”

Sverrir sagði að sú umfjöllun sem hefði verið um Tryggva Jónsson og aðkomu hans að málinu hefði ekki verið að hans frumkvæði og því væri fráleitt að tala um að hann væri að standa í einhverju skítkasti. ,,Þeir hafa verið færir um það sjálfir að koma sér í þessi vandræði og allt tal um skítkast er hálf einkennilegt.”

Sverrir sagði aðspurður að hann hefði engar efasemdir um að það hafi verið að frumkvæði Landsbankans að leitað var til Haga. Skiptastjóri BT hafi ekki komið að málinu fyrr en óskað hafði verið eftir gjaldþrotaskiptum og þá hafi í raun verið búið að ráðstafa búinu. ,,Þegar þarna var komið sögu vorum við ekki í stöðu til að stýra einu né neinu. Það var bankinn sem stýrði ferðinni.”