„Við getum ekki gefið upp upphæðirnar að sinni. Það eru viss flækjustig í þessu. Við munum gefa upphæðina upp þegar hún verður orðin skýr,“ segir Soffía Sigurgeirsdóttir, upplýsingafulltrúi hjá Landsbankanum.

Eins og greint var frá fyrr í dag hefur Landsbankinn ákveðið að fella niður lán 500 einstaklinga og 30 lögaðila með ákveðnum fyrirvörum sem tekið höfðu lán til kaupa á stofnfjárbréfum í Sparisjóðnum í Keflavík, Sparisjóði Húnaþings og Stranda og Sparisjóði Vestfirðinga í loks árs 2007 áður en þeir voru sameinaðir Sparisjóðnum í Keflavík.

Soffía segir ekki verða gefið upp að sinni hversu há lán voru veitt til stofnfjárkaupa á sínum tíma. Ferlið sé flókið, sumir þeirra sem hafi fengið lánað til kaupanna hafi lent í vanskilum og farið í gegnum eitthvað form af skuldaaðlögum. Að sama skapi verður ekki gefið upp hvaða einstaklingar voru með hæstu lánin sem verða felld niður og hvort viðkomandi einstaklingar hafi geymt þau inni í einkahlutafélögum.

Viðskiptablaðið greindi frá því í ágúst að lán upp á 1,2 milljarða króna sem veitt voru til stofnfjárkaupa hjá Sparisjóðnum í Keflavík voru afskrifuð eftir að nýr sparisjóður, SpKef, var reistur á grunni þess gamla. Blaðið sagði frá því á sínum tíma að lánin hafi verið afskrifuð í nóvember og desember í fyrra.

Þá sagði að afskriftirnar hafi verið á meðal þess sem rýrði virði eigna SpKef gríðarlega undir það síðasta en tugmilljarða króna meðgjöf þurfti með sjóðnum til að hægt væri að færa innlán hans inn í Landsbankann þegar hann keypti sparisjóðinn.

Stjórn SpKef hafði í byrjun árs komið til móts við þá sem höfðu fengið lánað til kaupa á stofnfé Sparisjóðs Vestfjarða og fært þau niður að upphaflegum höfuðstól að viðbættum 3,75% óverðtryggðum vöxtum frá útgáfudegi. Þá var boðið upp á að erlend lán yrðu færð á upphaflegt gengi gjaldmiðla, sömuleiðis með 3,75% vöxtum og þau færð í íslenskar krónur. Lánin verða óverðtryggð til allt að 25 ára.