Landsbankinn hf. hefur sent frá sér tilkynningu þess efnis að bankinn hafi ekki veitt aflandsþjónustu og muni ekki gera það. Tilkynning kemur í kjölfar frétta þess efnis að Fjármálaeftirlitið hafi sent bönkunum fyrirspurn um hvort þeir veiti viðskiptavinum sínum slíka þjónustu.

Undanfarið hefur töluvert verið rætt um ráðgjöf til Íslendinga varðandi stofnun svonefndra aflandsfélaga. Þetta var m.a. gert af hálfu Landsbanka Luxembourg S.A., sem var dótturfélag Landsbanka Íslands hf.

Í tilkynningunni segir að í kjölfar þess að Fjármálaeftirlitið yfirtók rekstur Landsbanka Íslands hf. 7. október 2008 hafi nýr banki verið settur á laggirnar, þ.e. Landsbankinn hf. Sú starfsemi sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum tengist ekki starfsemi nýja bankans.