*

föstudagur, 18. júní 2021
Innlent 14. maí 2018 10:51

Bankinn vill Hótel Adam á uppboð

Íslandsbanki hefur óskað eftir því að húsnæði Hótel Adam á Skólavörðustíg verði selt á nauðungarsölu.

Ingvar Haraldsson
Hótel Adam er til húsa við Skólavörðustíg 42.
Haraldur Guðjónsson

Íslandsbanki hefur óskað eftir því að því að Skólavörðustígur 42, þar sem Hótel Adam er til húsa, verði selt á nauðungarsölu að því er fram kemur í Lögbirtingablaðinu. Þar segir að verði ekki búið að ganga frá greiðslum fyrir 14. júní verði húsið selt á uppboði á skrifstofum sýslumannsins á Höfuðborgarsvæðinu.

Alls er um að ræða sex fasteignanúmer á Skólavörðustíg 42. Fjárhæð krafna á hverju hluta fasteignarinnar, sem er í eigu R. Guðmundssonar ehf, rekstaraðila og eiganda hótelsins, nemur um 25 milljónum króna.

Töluvert hefur verið fjallað um aðbúnað á Hótel Adam og Ragnar Guðmundsson, eiganda þess. Í október var R. Guðmundssyni gert að greiða starfsmanni hótelsins 2,3 milljónir króna auk dráttarvaxta vegna vangoldinna launa. Þá voru gestir varaðir við því að drekka kranavatn á hótelinu en þess í stað bent á að kaupa vatnsflöskur á hótelinu sem reyndust einnig innihalda kranavatn. Meirihluti gesta sem skilið hafa eftir umsögn um hótelið á Tripadvisor gefa dvölinni eina stjörnu af fimm. Þá innsiglaði lögregla 9 hótelherbergi á hótelinu árið 2016 að því er RÚV greindi frá.