Wells Fargo hefur þurft að sæta mikillar gagrýni fyrir hneyksli ársins, en þau ollu því að John Stumpf þurfti að segja af sér. Tim Sloan, sem tók við forstjórasætinu fyrir stuttu, reynir nú að bæta starfsumhverfi bankans, en nýleg ummæli hans hafa vakið mis mikla lukku meðal almennings.

Ummælin tengjast öll lagaumhverfi banka, en Sloan telur það æskilegt að fjármálastofnunum verði veitt meira athafnafrelsi. Þá óskar hann þess að Donald Trump taki af skarið og sýni frumkvæði í þessum málum.

Eitt sem hefur farið óheyrilega í taugarnar á Sloan, er afskiptasemi bandaríska seðlabankans, sem fær að skipta sér af því hversu mikið bankar greiða í arðgreiðslur til hluthafa. Dodd-Frank lögin eru einnig ofarlega á lista Sloan, yfir lög sem væri æskilegt að afnema. Lögin banna bönkum að stunda verðbréfabrask með eigin reikning.

Sloan telur lagaumhverfi banka hemlandi og segir það jafnvel skapa hættur. Aðrir hafa gagnrýnt lagaramma fjármálafyrirtækja á svipuðum nótum, enda telja þeir aðilar að bankar verði svo uppteknir að því að standast kröfur stjórnvalda og eftirlitsaðila, að þeir nái ekki að sinna öðru með nægilegum afköstum. Auk þess sem lögfræðisvið bankana hafa þanist út, með tilheyrandi kostnaði.