Færeyski bankinn BankNordik hefur fengið 800 milljónir danskra króna að láni hjá danska seðlabankanum. Þetta jafngildir 18,2 milljörðum íslenskra króna.

Í tilkynningu frá BankNordik kemur fram að seðlabankinn hafi opnað fyrir lánveitingar til fjármálafyrirtækja í lok mánaðarins til þriggja ára.

Haft er eftir Janusi Petersen, bankastjóra BankNordik, að bankinn þurfi ekki á lánveitingunni að halda. þrátt fyrir sterka lausafjárstöðu og hærra eiginfjárhlutfall en lög kveði á um hafi engu að síður verið ákveðið að taka því til að styrkja lausafjárstöðuna til framtíðar.