Úrvalsvísitalan stóð nokkurn veginn í stað í dag í 765 milljón króna viðskiptum. Hækkaði vísitalan um 0,06%. Mest hækkun varð í bréfum færeyska bankans BankNordik eða 4,2% í 1,1 milljón króna viðskiptum. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær stefnir bankinn á að selja íslenska tryggingarfélagið Vörð á næstu misserum.

Össur hækkaði næstmest, eða um 3,26%. Tryggingafélögin lækkuðu nokkuð í dag. Mest lækkuðu bréf TM eða um 1,29%. Mest velta var hins vegar með bréf Reita, 199 milljónir.

Skuldabréfavísitala GAMMA lækkaði um 0,12% í dag. Óverðtryggði hluti vísitölunnar lækkaði um 0,23% og verðtryggði hlutinn um 0,06%. Af ríkisbréfaflokkunum lækkaði RIKB25 0612 mest eða um 0,45%. Ávöxtunarkrafa tveggja lengstu óverðtryggðu ríkisbréfaflokkanna, RIKB25 0612 og RIKB31 0124, mældist 7,33% í lok dags.