Færeyski bankinn BankNordik hagnaðist um 10,6 milljónir danskra króna, jafnvirði 223 milljónir íslenskra króna, á fyrsta ársfjórðungi. Þetta er einni milljón danskra króna meira en á sama tíma í fyrra.

Fram kemur í uppgjöri BankNordik að rekstrarhagnaður hafi numið 70 milljónum danskra króna á fjórðungnum sem er tvöfalt meira en á síðasta ársfjórðungi 2011. Tekjur námu tæpum 160 milljónum króna samanborið við 119 milljónir í fyrra.

Eigið fé BankNordik nam tveimur milljörðum danskra króna í lok fyrsta ársfjórðungs sem er álíka mikið og á sama tíma í fyrra.

Þá er tekið fram í uppgjörinu að umsvif BankNordik hafi aukist talsvert í fjármálakreppunni en m.a. keypti bankinn hluta af Amager-banken í Danmörku árið 2010. Við það tvöfaldaðist innstæður BankNordik.

Kátur forstjóri

Janus Petersen, bankastjóri BankNordik, er ánægður með uppgjörið og segir hann að reikna megi með góðu ári. Gert er ráð fyrir að hagnaður nemi á bilinu 100 til 170 milljónir danskra króna á árinu öllu sem er allt að fjórfalt meiri hagnaður en í fyrra.