Færeyski bankinn BankNordik hagnaðist um 32 milljónir danskra króna á síðasta ári. Það jafngildir rúmum 719 milljónum íslenskra króna. Þetta er tífalt minni hagnaður en í hittifyrra.

Rekstrarhagnaður nam 134 milljónum danskra króna í fyrra sem er tæp tvöföldun á milli ára.

Þá námu rekstrartekjur 754 milljónum danskra króna, sem er 13% aukning á milli ára.

Í uppgjöri bankans sem birt var í morgun kemur fram að stjórnendur bankans vænti þess að þetta ár verði gott og að rekstrartekjur geti farið í 880 til 930 milljónir danskra króna. Reiknað er mað að rekstrarhagnaðurinn fari í 150 til 200 milljónir króna.

Stjórn BankNordik leggur ekki til að greiddur verði út arður á þessu ári. Hann verði frekar nýttur til frekari vaxtar á þessu ári.

Í uppgjörinu er haft eftir bankastjóranum Janusi Petersen, að síðustu tvö ár hafi reynst góð enda bankinn vaxið mikið með kaupum á Sparbank í hittifyrra og góða hluta Amagerbanken í fyrra. Það skilaði þeim árangri að innstæðum í bankanum eru nú tvöfalt meiri en fyrir tveimur árum.

Helstu markaðssvæði BankNordic eru í Færeyjum, hér á landi, í Danmörku og á Grænlandi.

Uppgjör BankNordik