Stjórnendur BankNordik í Færeyjum gera ráð fyrir því að rekstrarhagnaður í fyrra verði í takti við væntingar eða upp á 180 til 190 milljónir danskra króna, jafnvirði 4,1 til 4,3 milljarða íslenskra króna. Í afkomuspá sem bankinn birti í dag er ekki gert ráð fyrir áhrifum einskiptikostnaðar og niðurfærslu á eignum. Þetta er öllu meiri afkoma en gert var ráð fyrir í byrjun nýliðins árs en þá var gert ráð fyrir rekstrarhagnaði upp á 150 til 200 milljónir danskra króna.

Fram kemur í afkomuspánni að einskiptikostnaður, samþætting og uppstokkun í rekstri, hafi numið í kringum 70 milljónum króna á síðasta ári og muni afkoman því færast niður í um 110 til 120 milljónir danskra króna, um 2,5 til rétt rúmra 2,7 milljarða íslenskra króna.

„Við erum klárlega á réttri leið,“ segir bankastjórinn Janus Petersen. Uppgjör BankNordik verður birt 5. mars næstkomandi.