Fjárfestar sem eiga hlutabréf í BankNordik hafa ekki riðið feitum hesti frá þessari fjárfestingu. Gengi bréfa færeyska bankans hefur fallið mikið á undanförnum 12 mánuðum og segja má að það hafi hríðfallið á undanförnum sex mánuðum.

Fyrir ári var gengið skráð um 158 krónur á hlut en stendur þessa dagana í um 74 krónum á hlut og nemur lækkunin því um 54 prósentum á tólf mánaða tímabili.

Ef aðeins er horft til síðustu sex mánaða nemur lækkunin um 40 prósentum. Til samanburðar má nefna að úrvalsvísitalan hefur lækkað um tæplega 12 prósent á síðustu sex mánuðum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.