Færeyski bankinn BankNordik hefur gengið frá samkomulagi um að selja 51% í tryggingarfélaginu Verði til Arion banka, en bankarnir hafa verið í viðræðum undanfarnar vikur. Fyrr í dag gengu aðilarnir frá skilyrtum kaupsamningi sín á milli.

Í ljósi þess að hömlur eru á viðskiptum með eftirstandandi hluti hafa aðilar ákveðið að gefa út kaup- og sölurétt á útistandandi hlutum sem heimila Arion banka að festa kaup á hlutunum þegar hömlunum hefur verið lyft, í seinasta lagi árið 2017. Verður fyrirtækið þá alfarið í eigu Arion.

Í tilkynningu frá Arion banka kemur fram að stefnt sé að því að efla enn frekar vöxt og þróun Varðar á íslenskum tryggingamarkaði, en engar verulegar breytingar eru fyrirsjáanlegar á daglegum rekstri. Ætti breytt eignarhald ekki að hafa áhrif á viðskiptavini.

Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki viðkomandi yfirvalda og er gert ráð fyrir að salan á 51% verði fullfrágengin innan fárra mánaða.