Færeyski bankinn BankNordik tapaði 332 milljónum danskra króna í fyrra, sem samsvarar um 6,3 milljörðum íslenskra króna. Árið 2014 tapaði bankinn 92 milljónum danskra króna. Í tilkynningu bankans kemur fram að þegar horft er framhjá áhrifum Varðar tryggingafélags var tapið meira í fyrra, eða 369 milljónir danskra króna.

Rekstrartekjur bankans lækkuðu úr 737 milljónum danskra króna árið 2014 í 734 milljónir í fyrra. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og einskiptisliði lækkaði úr 230 milljónum í 214 milljónir danskra króna.

Stærsti einstaki liðurinn í ársreikningi bankans eru einskiptisliðir sem hafa neikvæð áhrif á afkomuna upp á 522 milljónir danskra króna. Er þetta að stærstum hluta til komið vegna afskrifta á viðskiptavild vegna starfsemi í Danmörku og Grænlandi að fjárhæð 468 milljónir danskra króna.

Í tilkynningu segir að gert sé ráð fyrir því að rekstrarhagnaður bankans á þessu ári fyrir afskriftir og einskiptisliði verði á bilinu 150-190 milljónir danskra króna.