Færeyski bankinn BankNordik ætlar að selja hlut sinn í tryggingarfélaginu Verði, að því er segir í tilkynningu til kauphallarinnar, en bankinn á nú allt hlutafé í tryggingafélaginu.

Í tilkynningunni segir að bankinn muni að öllum líkindum ekki geta selt allt hlutaféð fyrr en í júní 2017, enda sé sölu á 49% hluta í félaginu skorður settar fram að þeim tíma. Engu að síður sé stefnt að sölu á öllu hlutafé í Verði.

Í tilkynningunni segir að markmiðið með sölunni sé að skerpa áherslur í rekstri og draga úr landfræðilegri dreifingu starfsemi bankans.