Dómsmálaráðuneytið hefur fellt úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Kópavogi frá seinasta hausti um að banna nektardans í atvinnuskyni á veitingastaðnum Goldfinger þar í bæ.

Gerir ráðuneytið sýslumanninum að taka leyfisveitingu um heimild í rekstrarleyfi til meðferðar á ný að fenginni nýrri umsögn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram í úrskurði ráðuneytisins sem það birti fyrr í dag.

Ósannað að fullyrðingar um glæpastarfsemi og mansal eigi við

Sýslumaðurinn í Kópavogi synjaði umsókn eigenda Goldfinger um rekstrarleyfi í októberlok sl. og kærðu eigendurnir þá ákvörðun til ráðuneytisins.

Í úrskurði ráðuneytisins segir m.a. að það telji að umsögn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu sé haldin verulegum efnisannmörkum og sjónarmið hans varðandi rekstur nektarstaða víða annars staðar í Evrópu hafi að verulegu leyti ráðið niðurstöðu umsagnar hans.

Þar segir meðal annars:

„Í umsögn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu er m.a. vísað til þess að nokkur reynsla sé af því hér á landi að það séu nær eingöngu ungar erlendar stúlkur sem leggi stund á nektardans í atvinnuskyni en að reynst hafi ómögulegt að kanna hjá þeim stúlkum sem hingað hafa komið stöðu þeirra og aðstæður og ástæður þess að þær stunda þessa iðju og hvort þær séu þvingaðar til þess. Rannsóknir yfirvalda sem fram hafa farið víða í Evrópu á starfsemi nektardansstaða sýni fram á að þær stúlkur sem taki þátt í þessari starfsemi séu oftast mjög ungar og þolendur misneytingar, mansals og glæpa. Þá er í umsögn lögreglustjórans vísað til þeirrar staðreyndar að oftar en ekki séu það skipulögð glæpasamtök sem útvegi stúlkur til þessarar starfsemi. Ráðuneytið telur ósannað í málinu að framangreindrar fullyrðingar lögreglu eigi við um starfsemi kæranda. Þá telur ráðuneytið að framangreind sjónarmið hafi að verulegu leyti ráðið niðurstöðu umsagnarinnar og af þeim sökum sé umsögn lögreglustjórans haldin verulegum efnisannmörkum.”

Má heimila að uppfylltum skilyrðum

Einnig telur ráðuneytið að lögreglustjóri geti ekki lagst gegn því að öllum veitingastöðum verði veitt heimild til að bjóða upp á nektardans í atvinnuskyni í umsögn sem hann veitir vegna tiltekins máls. Verði að líta til þess að samkvæmt lögum sé ljóst að löggjafinn hafi litið svo á að nektardans í atvinnuskyni geti verið heimilaður á veitingastöðum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.