*

mánudagur, 23. september 2019
Innlent 12. mars 2019 15:30

Notkun MAX 8 sjálfhætt eftir bann Breta

Bann flugmálayfirvalda á Bretlandi við notkun Boeing 737 MAX 8 kom forsvarsmönnum Icelandair á óvart.

Ingvar Haraldsson
Haraldur Guðjónsson

Rekstri þriggja Boeing 737 MAX 8 flugvéla Icelandair Group var sjálfhætt eftir ákvörðun breskra flugmálayfirvalda um að banna flugvélarnar í sinni lofthelgi að sögn Jens Þórðarsonar, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair.

Hann segir ákvörðun breskra flugmálayfirvalda hafa komið á óvart. „En við virðum hana og fylgjumst vel með því sem gerist í kjölfarið,“ segir Jens. „Við ákváðum að taka þessa ákvörðun í ljósi þess að nærumhverfi okkar er komið á þessa braut,“ segir Jens. 

„Bæði Boeing og bandarísk flugmálayfirvöld hafa gefið það út að þau telji vélar vera fullkomlega öruggar. Það sem Bretarnir gera er svolítið á skjön við það og maður veit svo sem ekki á hvaða upplýsingum þeir byggja. Við höfum ekki fengið neitt um það,“ segir hann. Flugmálayfirvöld í Kína, Indónesíu, Ástralíu, Frakklandi, Þýskalandi og Írlandi eru meðal þeirra sem hafa bannað notkun vélanna í sinni lofthelgi og þá hafa nokkur flugfélög hætt notkun vélanna að svo stöddu, þar með talið Norwegian Air.

Engu síður hafi forsvarsmenn Icelandair ekki ástæðu til að ætla annað en að flugvélarnar séu öruggar. „Okkar sjálfstæða mat á öryggi vélanna er óbreytt,“ segir Jens. Hann segir ákvörðunina ekki hafa áhrif á leiðakerfi félagsins, en 33 vélar eru í flugflota Icelandair.