EFTA-dómstóllinn gaf á föstudaginn dag út ráðgefandi álit þar sem fram kemur að í banni við áfengisauglýsingum felist hindrun í vegi viðskipta með vörur og þjónustu á Evrópska efnahagssvæðinu en með hliðsjón af heilsuverndarsjónarmiðum kunni slíkt bann eigi að síður að vera réttlætanlegt.

Tildrög þessa máls eru þau að útgefendur norska tímaritsins Vinforum birtu í desemberhefti tímaritsins árið 2003 auglýsingar á frönskum og spænskum vínum. Í kjölfarið voru útgefendur tímaritsins sektaðir af norskum stjórnvöldum fyrir að hafa brotið gegn ákvæðum norsku áfengislöggjafarinnar sem banna áfengisauglýsingar. Sektarákvörðuninni var skotið til svonefnds Markaðsráðs í Noregi sem er sjálfstæð úrskurðarnefnd um mál af þessu tagi.

Markaðsráðið óskaði í kjölfarið eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstóllsins um hvort bann við áfengisauglýsingum samkvæmt norsku
áfengislöggjöfinni samræmdist EES-samningnum. Í svari EFTA-dómstólsins kemur m.a. fram að í banni við auglýsingum á áfengi felist takmarkanir á frelsi til að stunda viðskipti með vörur og þjónustu á Evrópska efnahagssvæðinu. Hins vegar telur dómstóllinn að viðhalda megi slíku banni með skírskotun til verndar almannaheilbrigðis, nema ef ljóst þyki að ná megi fram sömu markmiðum eftir öðrum leiðum sem ekki fela í sér sambærilegar hindranir í viðskiptum á Evrópska efnahagssvæðinu.
Hins vegar leggur EFTA-dómstóllinn áherslu á að það sé hlutverk innlendra dómstóla að meta hvort bann við áfengisauglýsingum í löggjöf einstakra
EFTA-ríkja samræmist EES-samningnum, enda séu innlendir dómstólar í betri aðstöðu til þess að meta aðstæður í hverju EFTA-ríki fyrir sig.

Í áliti sínu ítrekar EFTA-dómstóllinn jafnframt að viðskipti með vín falli utan gildissviðs EESsamningsins. Sömu sögu sé að segja um þjónustu
sem tengist viðskiptum með vín, þ.m.t. vínauglýsingar.