Hryðjuverkaógnin í Bretlandi mun ekki aðeins hafa áhrif á viðskiptalífið í kjölfar seinkana flugferða, því nú hafa viðskiptamenn bent á að nú þegar óheimilt er að ferðast með fartölvur í flugi muni framleiðni einstaklinga minnka, segir í frétt Financial Times.

Viðskiptamenn sem Financial Times ræddi við segja að mikil vinna komist í framkvæmd í flugferðum og að bannið geti því haft slæmar afleiðingar. Þeir telja þó að bannið geti ekki staðið lengi yfir, þar sem flugfarþegar muni ekki láta bjóða sér það.

Ef ástandið mun ekki batna á næstunni er útlit fyrir að flugferðir í viðskiptaerindagjörðum muni minnka, en slík flug eru nokkuð stór tekjulind margra flugfélaga, segir í fréttinni.

Einnig hafa sendingar með trúnaðargögn verið bannaðar og lítur ekki út fyrir að því banni verði aflétt á næstunni, segir í fréttinni.