Stefnt er að því að auka gagnsæi lyfjaverðlagningar í fyrirhuguðum breytingum á lögum og reglugerðum um lyfsölu á Íslandi og bann við póstsölu lyfja verður afnumið.  Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisáðherra, hefur jafnframt falið heilbrigðisstofnunum að hefja samvinnu um útboð og innkaup á lyfjum til notkunar á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum. Þetta kom fram í ræðu ráðherra í gær á fundi Samtaka verslunar og þjónustu.

Ráðherra sagði að í ráðuneytinu lægju nú fyrir í drögum breyting á lyfjalögum og reglugerðum og muni verða afgreidd á næstu dögum og vikum. Í þeim er m.a. gert ráð fyrir að Lyfjastofnun í samvinnu við innlenda og erlenda aðila vinni að fjölgun lyfja á markaði og að Lyfjastofnun fái heimild til að veita leyfi til markaðssetningar nauðsynlegra lyfja sem erfitt hefur reynst að útvega. Þá verður bann við póstverslun með lyf fellt niður. „Póstverslun bundin lyfsöluleyfum mun væntanlega opna ýmsa möguleika og efla samkeppni á markaðnum,” sagði ráðherra.

Sérstaklega á að skoða gagnsæi verðlagningar lyfja, að mati heilbrigðisráðherra, en skortur á slíku gagnsæi er talinn vera ein helsta hindrun á frjálsri samkeppni á lyfjamarkaði. Ráðherra kveðst telja ljóst að íslenskur lyfjamarkaður virkar ekki sem skyldi.

„Á undanförnum mánuðum hef ég ítrekað lýst því yfir að markmið mitt varðandi lyfjamarkaðinn á Íslandi er í grófum dráttum tvíþætt: Annars vegar að lækka lyfjakostnað ríkisins og hins vegar að lækka lyfjaverð til almennings, samhliða auknu framboði lyfja og fyllsta öryggi sjúklinga. Við þær aðstæður sem hér ríkja eru tvær leiðir til að ná fram þessu markmiði. Annars vegar að auka afskipti ríkisins af verðlagningu, innflutningi og dreifingu lyfja eða að reyna að opna markaðinn, auðvelda aðkomu fleiri aðila og stuðla að aukinni samkeppni og frjálsari viðskiptum á markaðinum. Það þarf enginn að velkjast í vafa um að ég aðhyllist síðari kostinn enda er hann í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar,” sagði Guðlaugur.