Frumvarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfisráðherra um bann við afhendingu einnota plastpoka án endurgjalds var samþykkt á Alþingi í gær, og taka lögin gildi 1. júlí næstkomandi að því er Fréttablaðið greinir frá.

Hins vegar mun bannið við afhendingu plastburðarpokanna sjálfra ekki taka gildi fyrr en 1. september, en síðan verður algerlega óheimilt að selja þá í stykkjatali þá frá 1. janúar 2021. Nær bannið einnig til plastpokanna sem notaðir eru í grænmetisdeildum verslana til að kaupa grænmeti í lausu.

Samt sem áður munu verslanir geta haft plastpoka í rúllum til sölu, eins og almenna nestispoka og ruslapoka. Bannið nær ekki til burðarpoka úr öðrum efnum eins og maíssterkju og annarra niðurbrjótanlegra efna sem borið hefur á í auknum mæli í verslunum undanfarin misseri, en verslunum er gert að rukka fyrir slíka poka frá september komandi.

Frumvarp ráðherrans, sem skipaður var af Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og formanns Vinstri grænna, var samþykkt með 43 atkvæðum, en sjö þingmenn greiddu ekki atkvæði um málið.

Formaður Miðflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, gagnrýndi hins vegar frumvarpið og sagði það sýndarmennsku en ekki heildstæða lausn á umhverfisvandanum. Ari Trausti Guðmundsson þingmaður VG svaraði hins vegar Sigmundi þeim orðum að þetta væri einungis hluti af 18 skrefa aðgerðaráætlun stjórnvalda sem væri heildræn nálgun.