Neytendastofa hefur lagt á bann við auglýsingar Heimkaups um fría heimsendingu. Verði ekki farið að banninu getur Wedo, móðurfélag Heimkaups, átt von á sektum, að því er kemur fram í ákvörðun stofnunarinnar.

Í auglýsingu Heimkaups segir „frítt heim til þín á 2 tímum“, „Við erum tilbúin og sendum frítt til þín“ og „við sendum frítt.“ Skilyrði fyrir heimsendingunni voru þau að aðili væri staddur á höfuðborgarsvæðinu og keypti vörur fyrir að lágmarki 14.900 krónur, síðar breytt í 7.900 krónur. Þá var þjónustan undanskilin fyrir kaup á fyrirferðamiklum eða þungum vörum.

Neytendastofa telur að auglýsingarnar séu villandi fyrir neytendur, annars vegar þar sem skilyrði takmarki það í hvaða tilvikum heimsendingin sé í boði. Hins vegar telur Neytendastofa almennt villandi að lýsa þjónustu með orðum eins og „ókeypis“ eða „frítt“ ef greiða þarf fyrir aðra vöru eða þjónustu til þess að fá það sem sagt er „frítt“.

Neytendastofa sendi bréf til Wedo þann 1. júní síðastliðinn þar sem stofnunin greindi frá því að ábending hafi borist frá neytenda vegna auglýsinganna. Í bréfinu var tekið fram að stofnunin myndi ekki aðhafast frekar vegna ábendingarinnar, að svo stöddu, en minnti á mikilvægi þess að orð á borð við „frítt“ kæmi ekki fram í auglýsingum fyrir þjónustu sem þyrfti að greiða fyrir.

Neytendastofa sendi ítrekunarbréf, dagsett 19. júlí, vegna áframhaldandi auglýsinga Heimkaups um fría heimsendingu. Svar barst frá Wedo þann 5. ágúst.

Fyrirtækið taldi sig hafa brugðist við ábendingu Neytendastofu um skilyrðið að neytandi þurfi að vera staddur á höfuðborgarsvæðinu með því að breyta auglýsingunni. Sú breyting fól í sér að sett var inn stjörnumerking sem vísaði til texta í neðra hægra horni auglýsinganna þar sem stóð „*Innan höfuðborgarsvæðisins“. Wedo bendir einnig á að þeim stafrænum auglýsingum hafi einungis verið beint að neytendum á höfuðborgarsvæðinu.

Varðandi skilyrðið um að keyptar væru vörur að lágmarki 7.900 krónur, þá segir Wedo að ekki sé hægt að fá heimsendingu frá Heimkaupi nema að kaupverðið nemi þessu lágmarki. Sé keypt fyrir lægri upphæð þarf að sækja vörur til Heimkaups. Kæmi því aldrei fyrir að viðskiptavinir á höfuðborgarsvæðinu borguðu fyrir heimsendingu. Í svarinu er þá vísað til neðanmálsgreinar þar sem fram kemur að „stórar og þungar vörur“ bæru sérstakt heimsendingargjald. Slíkt væri tekið fram í kaupferlinu og á heimasíðu Heimkaups.

Fullyrðingin raski verulega fjárhagslegri hegðun

Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að þótt auglýsingarnar beri nú stjörnumerki auk stuttra skýringa á takmörkunum á þjónustu, þá sé villandi að lýsa þjónustu með orðum eins og „ókeypis“ eða „frítt“ ef neytandi þarf að greiða fyrir aðra þjónustu til þess að fá eitthvað „frítt“.

„Notkun orðsins frítt í auglýsingunni felur í sér rangar upplýsingar um verð þjónustu og eru þessar upplýsingar líklegar til að valda því að hinn almenni neytandi sem auglýsingarnar beinast að, taki viðskiptaákvörðun sem hann myndi ekki annars hafa tekið. Þá er fullyrðingin líkleg til að raska verulega fjárhagslegri hegðun neytenda,“ segir í ákvörðun Neytendastofu.