Fjártán sveitarfélög á Suðurlandi eru nú með í samþykktarferli sameiginlega lögreglusamþykkt sem á að skýra og herða á reglum um að ólögmætt sé að gista í húsbílum, fellihýsum, töldum og öðrum sambærilegum búnaði utan skipulagðra tjaldsvæða.

Í dag er á þessu svæði í gildi lögreglusamþykkt frá dómsmálaráðuneytinu, en Gunnar Þorgeirsson, formaður Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga segir samþykktina nú vera til umræðu í sveitarfélögunum fjórtan að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

„Við erum að herða og skýra reglur um hvar má tjalda og hvar ekki, þetta gerir það skýrt að það megi einungis gista á skipulögðum tjaldsvæðum og hvergi annarsstaðar,“ segir Gunnar. „Þetta þarf að vera samþykkt tvisvar sinnum í hverju sveitarfélagi fyrir sig áður en þetta tekur gildi. Það virðist eitthvað standa á þessu hjá hinu opinbera en ég á von á því að það leysist fljótlega.“

Á ársþingi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga í október í fyrra var lögð fram hugmynd um sameiginlega lögreglusamþykkt fyrir sveitarfélögin, og segir Gunnar það hafa verið niðurstaðan eftir samtal sitt við lögreglustjóra Suðurlands.

„Ég talaði við lögreglustjórann um að það þyrfti eina samþykkt yfir öll sveitarfélög á Suðurlandi, það myndi bæta samfélagið enda ekki hægt að hafa mismunandi samþykktir eftir því hvorum megin landamæranna þú stendur. Hann benti mér síðan á að það væri best ef sveitarfélögin myndu vinna þetta í sameiningu."