Ríkisstjórn Katar hefur bannað íbúum sínum, bæði borgurum og öðrum, að yfirgefa landið, í aðdraganda þess að frestur ríkisins til að uppfylla skilyrði Sádi Arabíu og annarra arabaríkja rann út í nótt. Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um ástæður þvingananna.

Fyrst náði bannið einungis til þeirra sem unnu fyrir hið opinbera, sérstaklega sjúkrahús, en síðan hefur það verið víkkað út til fleiri geira. Stór hluti vinnuafls landsins eru erlendir, og hafa ekki ríkisborgararétt í landinu, og hafa meðal annars starfsmenn ríkisolíufélags landsins kvartað yfir því að hafa verið meinað að yfirgefa landið.

Talsmenn ríkisstjórnarinnar hafa sagt að sum frí hefðu verið afturkölluð í mikilvægum geirum fyrir ríkið til að hafa starfsfólk til staðar vegna þess vanda sem upp er kominn í landinu.