*

fimmtudagur, 4. júní 2020
Erlent 18. apríl 2018 09:16

Banna KPMG í S-Afríku að vinna fyrir ríkið

Suður Afríka hefur bannað alþjóðlegu bókhaldsfyrirtæki að fara yfir reikninga opinberra stofnana vegna spillingarmála.

Ritstjórn

Ríkisendurskoðandi Suður Afríku hefur tilkynnt að öllum samningum við KPMG vegna endurskoðunar á reikningum opinberra stofnana í landinu hafi verið rift.

Ástæðan er tengsl fyrirtækisins við Gupta fjölskylduna, sem hefur verið ásökuð um að hafa í samvinnu við fyrrum forseta landsins, Jacob Zuma, dælt fjármagni og verkefnum til eigin fyrirtækja. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá þurfti Zuma að segja af sér í febrúar eftir að varaforseti hans vann sigurorð á fyrrum eiginkonu hans í baráttu um leiðtogasæti Afríska þjóðarflokksins.

Sigraði eina af fyrrum eiginkonum Zuma

Hafði Cyril Ramaphosa, sem tekið hefur verið við sem forseti, gagnrýnt Zuma, fyrrum bandamann sinn í baráttunni gegn ríkisstjórn hvíta minnihlutann, vegna ítrekaðra spillingarmála í kosningabaráttunni, en Nkosazana Dlamini-Zuma sem var ein af mörgum fyrrverandi og núverandi eiginkonum Zuma var talin líkleg til að halda hlífiskildi yfir honum.

Litlu mátti þó muna á flokksþingi flokksins, sem hefur verið með tögl og haldir á stjórnkerfi landsins síðan árið 1994 þegar svartir íbúar landsins fengu að kjósa til jafns við aðra íbúa landsins, þegar aðskilnaðarstefnan í landinu var endanlega afnumin.

Ráku meðeigendur og báðust afsökunar

Aukin pressa hefur verið á KPMG, sem beðist hefur afsökunar á aðild sinni sem og nokkrir meðeigendur hafa yfirgefið fyrirtækið, síðustu vikur. Kom fyrirtækið aftur í hámæli eftir að VBS bankinn féll, þó fyrirtækið hefði skrifað upp á reikninga bankans fyrir síðasta ár.

Hefur KPMG sagt að meðeigendurnir tveir sem unnu að endurskoðun bankans hafi verið látnir fara eftir að í ljós kom að þeir hefðu ekki látið uppi um fjárhagsleg tengsl sín við bankann, að því er FT segir frá.

Fleiri fréttir frá Suður Afríku: