Íbúar Sameinuðu arabísku furstadæmanna eiga á hættu að vera dæmdir til allt að 15 ára fangelsisvistar ef þeir lýsa yfir stuðningi eða samúð með Katar. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg.

Byggir refsingin á því að í landinu eru ströng lög um tölvuglæpi. Lögin kveða meðal annars  á um harðar refsingar við rógburði um landið og refsingum við því skaða einingu þjóðarinnar.

Eins og viðskiptablaðið greindi frá slitu Sameinuðu arabísku furstadæmin stjórnmálasambandi við Katar á mánudag ásamt fleiri arabaríkjum og sökuðu ríkið um að styðja við hryðjuverkasamtök.

Sagði Hamad Saif Al Shamsi, ríkissaksóknari landsins að hver sá sem myndi sýna Katar einhverja samúð, stuðning eða hróflaði við stöðu Sameinuðu arabísku furstadæmanna myndi mæta ströngum og hörðum aðgerðum frá yfirvöldum.