Nordea, stærsti banki Norðurlandanna, hefur ákveðið að banna starfsmönnum sínum að eiga viðskipti með bitcoin og aðrar rafmyntir að því er Bloomberg greinir frá.

Víðsvegar í heiminum eru eftirlitsaðilar og yfirvöld að leita leiða til þess að setja viðskipti með bitcoin skorður og skapa regluverk fyrir rafmyntir. Sænska fjármálaeftirlitið, sem hefur meðal annars eftirlit með Nordea, hefur hins vegar sagt að það sé í höndum bankanna sjálfra að setja reglur innanhús um viðskipti með rafmyntir að því er kemur fram í svari Peter Svensson við fyrirspurn Bloomberg.

Nordea er fyrsti evrópski bankinn til þess að banna starfsmönnum að versla með bitcoin en bannið gildir frá 28. febrúar. „Það er víðtæk hefð fyrir því í bankageiranum að banna starfsfólki að taka stunda spákaupmennsku eða taka stöðu í mjög áhættusömum eignum sem gæti valdið þeim miklu fjárhagslegu tjóni,“ er haft eftir Afroditi Kellberg, talsmanni bankans.