*

sunnudagur, 24. október 2021
Erlent 29. apríl 2019 12:03

Banna viðskipti við hótel soldánsins

JP Morgan bannar gistingu á hótelum soldánsins í Brúnei vegna dauðarefsingar fyrir samræði utan hjónabands.

Ritstjórn
Hassanal Bolkiah er 29. soldáninn af Brunei.
european pressphoto agency

Fjárfestingarbankinn JP Morgan Chase hefur bæst í hóp fjölmargra fyrirtækja sem hyggjast sniðganga hótel sem eru í eigu Soldánsins í Brunei eftir að dauðarefsing fyrir samkynhneigð og kynlíf utan hjónabands tók gildi.

Bannar bankinn, sem er sá stærsti í Bandaríkjunum, starfsmönnum sínum að gista á einum af tugum hótela í eigu soldánsins, en meðal þeirra er Dorchester hótelið í London og Beverly Hills Hótelið í Los Angeles.

Áður höfðu fleiri fjármálafyrirtæki eins og Deutsche bank tekið skrefið sem og Samtök breskra lögreglumanna, og breski Íhaldsflokkurinn, sem og Financial Times sem hefur afturkallað viðburð sem átti að halda á Dorchester hótelinu í næsta mánuði.

Ákvörðunin kemur eftir ákall söngvarans Elton John og leikarans George Clooney, um að fjármálafyrirtæki og stofnanir verði kölluð til ábyrgðar fyrir að stunda viðskipti við „morðóða ríkisstjórn“ eins og þeir tóku til orða.

Ekki tilkynnt obinberlega

Ákvörðuninni var komið til starfsmanna fyrr í mánuðinum í lágstemdum skilaboðum til starfsmanna þar sem kom fram að ekki væri búið að gefa neitt út opinberlega. „Við erum að gera það sem rétt er hljóðlega, sem ég býst við að sé góður hlutur,“ segir í skilaboðunum að því er FT segir frá.

Talsmaður fyrirtækisins hefur síðan staðfest ákvörðunina, og að hún væri sem svar við nýjum lögum í landinu sem tóku gildi í byrjun mánaðarins. Samkvæmt lögunum, sem fylgja Sharia trúarlögunum, er líka heimilað að höggva hendur af þjófum sem og dauðarefsingar fyrir svartagaldur.

Sharía lögum komið á smátt og smátt

Brunei er olíuauðugt ríki með um 430 þúsund íbúum á Borneo eyju, sem umkringt er héruðunum Sabah, Sarawak og Labuan sem tilheyra Malasíu en þau hafa löngum verið sterkasta vígi kristinna manna í landinu.

Soldáninn í Brunei, sem er alvaldur í landinu, byrjaði árið 2014 að taka skref í átt að því að koma á Sharia lögum, en hefur hingað til frestað að þau taki gildi vegna alþjóðlegrar gagnrýni. Engin aftaka hefur verið í landinu frá því árið 1957 þegar það var enn breskt verndarsvæði.

Soldáninn segir Brunei hins vegar vera sjálfstætt ríki sem framfylgi eigin lögum, en lögin eigi að hindra „gjörðir sem eru andstæðar því sem Íslam kennir“.