*

þriðjudagur, 18. janúar 2022
Innlent 1. febrúar 2018 15:15

Klakka bannað að borga bónusa

Fyrirhugað kaupaukakerfi Klakka sem síðar var hætt við samræmdist ekki lögum að mati Fjármálaeftirlitsins.

Ísak Einar Rúnarsson
Lykill er megineign Klakka en bónusarnir umdeildu voru ætlaðir vegna sölu á Lykli.
Haraldur Guðjónsson

Umdeildir bónusar sem eignarhaldsfélagið Klakki tilkynnti að það myndi greiða starfsmönnum og stjórnarmönnum en dró síðar til baka samræmdust ekki lögum að mati Fjármálaeftirlitsins. Í dag er félagið komið á lista yfir eignarhaldsfélög á fjármálasviði hjá eftirlitinu og félagið bundið reglum um kaupauka sem kveða á um að bónusa megi ekki greiða til stjórnarmanna auk þess sem bónusar sem greiddir eru til starfsmanna mega að hámarki vera 25% af heildarlaunum þeirra.

Í tengslum við umfjöllun Viðskiptablaðsins í desember síðastliðnum fengust þær upplýsingar frá Fjármálaeftirlitinu að Klakki væri skilgreint sem blandað eignarhaldsfélag á fjármálasviði og heyrði því ekki undir lögin en við reglubundna endurskoðun um áramótin var staða félagsins endurskilgreind. Ekki verður betur skilið en að viðmiðunardagsetningin sé þó ekki bundin við birtingu Fjármálaeftirlitsins heldur dagsetninguna þegar eignastaða félagsins uppfyllir skilyrði laganna.

„Það er ekki þannig að skyldan til að fylgja reglunum sem tengjast eignarhaldsfélögum á fjármálasviði hefjist þegar við birtum okkar lista. Sú tímasetning miðast við hvenær félagið er komið í þá stöðu að uppfylla skilyrði þess að teljast slíkt félag. Í þeim skilningi er okkar birting ekki úrslitaatriði í þessu. Sem leiðir þá til þess að ef það hefði orðið af þessum kaupaukagreiðslum þá hefð­ um við talið það ekki samræmast lögum,“ segir Jón Þór Sturluson aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins.

Til grundvallar mati sínu notast Fjármálaeftirlitið við ársreikninga eignarhaldsfélaga eða ársreikningi Klakka árið 2016 í þessu tilfelli. „Við höfum ekki haft tilefni til þess að endurskoða þetta fyrr. En þarna hefur orðið breyting á efnahag félagsins einhvern tímann á árinu 2016, það er í rauninni við þann tímapunkt sem þeir uppfylla skilgreiningu laganna sem eignarhaldsfélag á fjármálasviði og þetta miðast við þá dagsetningu.“

Klakki starfaði áður undir nafni Exista en við nafnabreytinguna breyttist hlutverk félagsins en markmið þess er nú að hámarka virði eigna félagsins. Á heimasíðu Klakka er að finna tvær tilkynningar frá árinu 2016 um sölu á eignum félagsins sem kunna að hafa breytt stöðu þess og það uppfyllt skilgreiningu laganna sem eignarhaldsfélag á fjármálasviði. Annars vegar sala á hlut Klakka í Bakkavör og hins vegar sala á hlut félagsins í Kviku banka.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Klakki kaupaukakerfi bónusar kaupauki bónus