Ítölum verður bannað að eiga viðskipti í reiðufé fyrir meira en 1.000 evrur, um 160.000 krónur, í einu ef áform ítölsku ríkisstjórnarinnar verða að veruleika.

Nýr forsætisráðherra Ítalíu, Mario Monti, kynnti nýja áætlun sem ætlað er að koma fjármálum ítalska ríkisins í samt lag. Þar á meðal eru aðgerðir, sem ætla má að verði mjög óvinsælar, eins og hækkun eftirlaunaaldurs auk skattahækkana og niðurskurðar í opinberum útgjöldum.

Aðrar róttækari tillögur Montis eru t.d. að taka aftur upp óvinsælan eignaskatt, sem forveri hans, Silvio Berlusconi, afnam árið 2008. Þá vill Monti banna öll viðskipti í reiðufé yfir 1.000 evrum, eða um 160.000 krónur. Er þessari breytingu ætlað að gera skattaundanskot erfiðari. Meðal skattahækkananna, sem eru til umræðu, er hækkun á virðisaukaskatti í 23%.