Fjölmiðlateymi Tom Cruise hefur lagt blátt bann við því að leikarinn sé spurður persónulegra spurninga út í vísindakirkjuna eða stefnumótalíf sitt þegar hann kynnir sína nýjustu kvikmynd, „Mission: Impossible – Rogue Nation“. The Wrap greinir frá.

Cruise hefur verið duglegur að kynna nýju Mission: Impossible myndina undanfarna viku og er hann meðal annars búinn að mæta til Jimmy Fallon og deila líkamsræktarráðum með Jon Stewart. Enginn þáttastjórnandi hefur þó spurt Cruise út í heimildamyndina „Going Clear“, sem fer ansi hörðum orðum um það sem á sér stað innan Vísindakirkjunnar, sem Cruise er tryggur hluti af.

Samkvæmt The Wrap hafa fjölmiðlafulltrúar Cruise tekið fyrir það að hann sé spurður út í kvikmyndina eða aðra hluti tengda einkalífinu. Aðili sem vann náið með Cruise árið 2006 segir að leikarinn hafi verið talsvert þögulli þegar kemur að Vísindakirkjunni undanfarin ár. Árið 2006 var það þó ekki tilfellið og var hann þá duglegur að breiða út hróður myndarinnar.

„Í kringum þriðju „Mission: Impossible“ myndina voru blaðamenn að mæta á fyrirlestra hjá Vísindakirkjunni bara til að geta rætt hana almennilega við Tom,“ sagði einstaklingurinn við The Wrap.

Heimildamyndin „Going Clear“ hefur vakið gríðarlega athygli en þar kemur fram að Cruise og John Travolta séu verðmætustu eignir Vísindakirkjunnar og að þeir geti ekki yfirgefið kirkjuna jafnvel þó þeir vilji það. Ástæðan er sú að kirkjan geymir marga klukkutíma af þeirra myrkustu leyndarmálum sem tekin hafa verið upp í ákveðnum viðtölum þar sem menn eiga að láta allt flakka.