Starfshópur sem fjallaði um afnám verðtryggðra lána leggur til að verðtryggð jafngreiðslulán til lengri tíma en 25 ára verði afnumin þann 1. janúar 2015. Þá verði á sama tíma lágmarkstími verðtryggðra neytendalána hækkaður úr fimm árum í allt að 10 ár. Tillögurnar voru kynntar á fundi núna klukkan fjögur.

Einnig leggur hópurinn til að takmarkanir verði settar á veðsetningu vegna verðtryggðra íbúðalána þann 1. janúar 2015. Hvatar verði auknir til töku og veitingar óverðtryggðra lána þann 1. janúar 2015. Nefndin segir að aldrei hafi verið stigin stærri skref til afnáms verðtryggingar og með þessum hugmyndum.

Í tillögum hópsins eru tíundaðir ókostir verðtryggingar. Til dæmis að hún varpi allri áhættu af verðbólguskotum yfir á heimilin sem lántaka. Slíkt fyrirkomulag þekkist hvergi í sama mæli á meðal vestrænna hagkerfa. Verðtryggð lán erlendis séu frekar tekin af þeim sem hafi verðtryggðar tekjur. Útbreidd notkun verðtryggingar á neytendalánum geti leitt til vanmats á skuldaraáhættu.

Nefndin vill að skattalegir hvatar verði nýttir í enn meira mæli en gert er í núverandi vaxtabótakerfi til að hvetja til töku og veitingar óverðtryggðra lána. Þetta verði til dæmis gert með því að heimila aðeins vaxtabætur vegna greiðslu vaxta en ekki vegna greiðslu verðbótaþáttar. Þá verði fjármálafyrirtækjum gert skylt að hafa jafnvægi á milli verðtryggðra eigna og skulda þannig að viðvarandi misræmi verið óheimilt. Einnig að tryggt verði skilvirkt eftirlit með veðsetningarhlutföllum þegar veittra íbúðalána til að áhættuflokkun sé samvkæmt reglum hverju sinni. Nefndin segir að líkur á neikvæðri eiginfjármyndun langra verðtryggðra lána ættu að öðru jöfnu að gera þau dýrari fyrir banka.