Svissneski bankinn UBS hefur sagt þeim starfsmönnum sínum sem unnu á fyrrum fjárstýringarsviði þess og höndluðu með málefni auðugra Bandaríkjamanna að ferðast ekki til Bandaríkjanna, að því er Financial Times greinir frá.

Þá hefur bankinn útvegað um fimmtíu einstaklingum af þeim hópi lögfræðinga, þar á meðal einstaklingum sem eru hættir störfum hjá bankanum frá því bankinn ákvað að draga verulega úr fjárstýringu sinni fyrir auðuga Bandaríkjamenn í nóvember sl.

Fyrirmælin og lögfræðiaðstoðin kemur í kjölfar þess að bandarísk yfirvöld kærðu einn af fyrrum yfirmönnum þess , Bradley Birkenfeld, á þeim forsendum að hann hefði hjálpað viðskiptavini sínum í hópi milljarðamæringa að skjóta fjármunum undan skatti. Birkenfeld kveðst saklaus.

Málið verður tekið fyrir á fyrsta dómsstigi á mánudaginn næsta.

Fyrrum starfsmenn kvíðafullir

Margir starfsmenn UBS hafa hætt hjá bankanum vegna áhyggna þeirra af rannsókn bandarískra yfirvalda og óttast að ef þeir verði handteknir muni þeir ekki njóta stuðning bankans.

„Við höfum mörg hver á tilfinningunni að við megum missa okkur,” sagði einn úr þeim hópi við blaðamann Financial Times.

Telur blaðið ferðahömlur þær sem bankinn hefur lagt á starfsmenn sína benda til að forsvarsmenn hans óttist að rannsókn bandarískra yfirvalda verði mun víðtækari en hún hefur verið til þessa. Þá hefur einn starfsmanna fyrirtækisins verið kyrrsettur í Bandaríkjunum á þeim forsendum að hann sé lykilvitni.