Matvælastofnun aflétti í gær banni á dreifingu fóðurs frá Fóðurblöndunni, en áfram verður fylgst með því að fyrirtækið standi við aðgerðaráætlun um bætta framleiðsluhætti. Bann við dreifingu fóðursins var sett á eftir að sex tilfelli salmonellu komu upp á alifuglabúum sem eiga það sameiginlegt að hafa fengið tilbúið fóður frá Fóðurblöndunni hf.

Í ákvörðun Matvælastofnunar var gerð krafa um að fyrirtækið framkvæmdi aðgerðaráætlun um þrif, gæðaeftirlit og fleira sem fyrirtækið hafði lagt fram vegna málsins. Fóðurblandan hf. skyldi auk þess framkvæma viðbótarhreinsanir á framleiðslulínu fyrirtækisins og auka gæðaeftirlit við enda hennar. Þá var gerð sú krafa að niðurstöður úr rannsóknum að loknum alþrifum staðfestu fullnægjandi þrif á fyrirtækinu. Matvælastofnun gerði jafnframt kröfu um að fyrirtækið upplýsti alla kaupendur tilbúins fóðurs frá 1. janúar 2013 um að sýni úr umhverfi og sekkjunarbúnaði hafi greinst jákvæð vegna salmonellu.

Í úttekt var staðfest að úrbætur og alþrif á fyrirtækinu sem og viðbótarþrif á framleiðslulínu hafi farið fram. Matvælastofnun hafa sömuleiðis borist niðurstöður úr sýnatökum að loknum alþrifum á fyrirtækinu og eru þau sýni neikvæð fyrir salmonellu. Þá hefur stofnunin fengið það staðfest að kaupendur tilbúins fóðurs hafi verið upplýstir af hálfu fyrirtækisins um niðurstöður úr umhverfissýnum.