Steve Bannon, sem verið hefur stjórnarformaður Breitbart fréttastofunnar frá því árið 2012 og um tíma aðalráðgjafi Donald Trump Bandaríkjaforseta þangað til hann var látinn fara í ágúst 2017 hefur látið af störfum á fréttastofunni.

Einn stærsti bakhjarl fréttastofunnar, sem hefur staðsett sig til hægri í umfjöllun sinni og oft verið gagnrýnd fyrir harðan tón en risið hratt í vinsældum undir stjórn Bannon, sneri baki við Bannon í kjölfar deilna hans við forsetann.

Steve Bannon hefur beðið forsetann afsökunar og sagt að tilvitnun í sig úr bók Michael Wolff, Fire and Fury sem kom út í síðustu viku og fjallaði um fyrstu dagana í forsetatíð Trump hafa verið tekna úr samhengi. New York magazine fjallaði ítarlega um efni bókarinnar.

Segir ummælin hafa átt við annan mann

Í bókinni er haft eftir honum að sonur forsetans, Donal Trump yngri, hafi hitt fulltrúa Rússa í aðdraganda kosningabaráttunnar sem jaðri við landráð. Í afsökunarbeiðninni segir hann að ummælunum hafi verið beint að Paul Manfort, kosningastjóra Trump, en forsetasonurinn sé þvert á ummælin sem eftir honum séu höfð þjóðhollur og góður maður.

Talsmaður Hvíta hússins, Hogan Gidley sagði hins vegar spurður hvort forsetinn myndi samþykkja afsökunarbeiðnina að „Ég held ekki að það sé nein leið til baka úr þessu.“

Afsögn Bannon kemur fimm dögum eftir að langtíma bakhjarlar Breitbart fréttastofunnar og einn af þremur hluthöfum í henni, Robert Mercer og dóttir hans Rebekah höfðu snúið baki við honum og beðið forsetann afsökunar og lýst yfir stuðningi við forsetann.

Fréttastofan WSJ segir að eiginkona Andrew Breitbart stofnanda fréttastofunnar sem einnig situr í stjórninni og fleiri hefðu í kjölfar deilnanna snúið baki við Mannon. Í yfirlýsingu sinni sagðist Bannon vera mjög stoltur af árangri Breitbart en framkvæmdastjóri fjölmiðilsins Larry Solov sagði að fréttastofan yrði ávalt þakklát fyrir framlag hans.