Hæstiréttur Íslands kvað upp dóm síðdegis í gær þar sem Banque Havilland var gert að greiða þrotabúi Baugs rúma 1,3 milljarða króna auk dráttarvaxta.

Þrotabú Baugs hélt því fram að gjafagerningar hefðu falist í greiðslum Baugs til Banque Havilland og krafðist því endurgreiðslu. Baugur hefði keypt eigin hluti frá Bague S.A. og greitt fyrir það með millifærslu til Kaupþings, sem síðan hefði ráðstafað greiðslunni til Kaupthing Bank Luxembourg S.A., forvera Banque Havilland, og inn á skuld Bague.

Fyrir héraðsdómi hafði þrotabú Baugs höfðað riftunarmál á hendur sex aðilum og féllst héraðsdómur á kröfur þrotabúsins á hendur öllum aðilum nema Banque Havilland sem var sýknaður. Var dóminum áfrýjað einungis hvað þann þátt málsins varðaði.

Hæstiréttur tók fram að fyrir lægi að fjárhagur Baugs hefði verið afar bágborinn þegar félagið greiddi fyrir eigin hluti með áðurnefndum greiðslum. Banque Havilland hefði mistekist að sýna fram á að félagið hefði á þeim tíma verið gjaldfært og það þrátt fyrir greiðslurnar.