„Viðvarandi lóðarskortur er staðreynd í Reykjavík," segir Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, í pistli sem birtist í Viðskiptablaðið. „Hann hefur valdið þeim hækkunum fasteignaverðs í borginni, sem aldrei hafa sést áður, þrátt fyrir að oft hafi komið hækkunartímabil.

Um er að kenna þrákelknislegri stefnu um þéttingu byggðar sem byggir á þeirri óraunhæfu framtíðarsýn núverandi meirihluta að í borginni  sé aðeins aukning á ríkum Reykvíkingum sem hafa efni á því að kaupa sér rándýrar lúxusíbúðir á dýrustu þéttingarsvæðum borgarinnar. Aðgerðar- og dugleysi núverandi meirihluta er hrópandi.

Í ársreikningum Reykjavíkurborgar síðustu ár hefur ekki verið að sjá útsvarshækkanir sem gefa til kynna að það sé raunin, heldur frekar þvert á móti þá hafa útsvarstekjur ekki hækkað í takt við íbúafjölgun. Af þessu má draga þá ályktun að ekki sé þörf á uppbyggingu fleiri lúxusíbúða. Venjulegur borgarbúi hefur ekki tekjur til að kaupa á þéttingarsvæðunum þar sem Dagur vill byggja.

Borgarstjóri hefur digurbarkalega barið sér á brjóst og talið upp íbúðir sem verið er að byggja í höfuðborginni á dýrustu svæðum hennar, þéttingarsvæðum. Til að halda þeirri þéttingu áfram skal fórna flugvellinum í Vatnsmýrinni, flugvelli alla landsmanna. Veruleikinn sem borgarbúar þurfa nú að horfast í augu við er að mikið framboð verður næstu misserin á íbúðum sem flestir telja vera lúxusíbúðir og mjög dýrum eignum. Íbúðir sem aðeins sárafáir hafa efni  á að kaupa á meðan að skortur er á venjulegum íbúðum á ódýrari byggingarsvæðum."

Pistil Sveinbjargar Birnu má lesa í heild hér .