Umsjónaraðilar hlutafjárútboðs Íslandsbanka hafa ráðlagt að leiðbeinandi lokaverð verði 79 krónur á hlut. „Líkur eru fyrir því að lægri tilboð verði ekki samþykkt,“ segir í tilkynningu sem Íslandsbanki sendi frá sér í morgun.

Upphaflega höfðu umsjónaraðilar lagt upp með að leiðbeinandi verð í útboðinu yrði á bilinu 71-79 krónur á hlut. Umsjónaraðilar virðast því áætla að endanlegt útboðsverð verði við efri mörk verðbilsins.

Við útboðsgengið 79 krónur á hlut þá verður markaðsvirði Íslandsbanka 158 milljarðar króna. Ríkissjóður mun selja að lágmarki 25% af útgefnu hlutafé bankans, sem gæti þó stækkað í allt að 35% hlut. Miðað við ráðlagða lokaverðið verður söluandvirði ríkissjóðs á bilinu 39,5-55,3 milljarðar króna í útboðinu.

Sjá einnig: Eðlilegur útboðsafsláttur ?

Bankinn tilkynnti í lok fyrsta dags útboðsins að borist hefðu tilboð í alla þá hluti sem til stendur að selja í útboðinu, jafnvel ef útboðið yrði stækkað. Heimildarmenn Viðskiptablaðsins gera ráð fyrir við að þegar upp er staðið muni eftirspurnin hlaupa á hundruðum milljarða króna.