Námið í nýjasta skóla landsins, Sahara Academy, fer vel af stað að sögn skólastjórans en þar eru nemendur skólaðir í stafrænni markaðssetningu.

„Þetta hefur gengið alveg framar björtustu vonum,“ segir Freyr Guðlaugsson skólastjóri Sahara Academy, en skólinn er á vegum auglýsingastofunnar Sahara. „Nemendurnir eru áhugasamir og spyrja mikið, sem gerir kennsluna að samtali frekar en einstefnu, eins og góð kennsla ætti að vera.“

Alls bárust tæplega 60 umsóknir um skólavist en sjö nemendur voru teknir inn að þessu sinni, allt konur.

„Við vorum hæstánægð með fjölda umsækjenda, sérstaklega því fyrirvarinn var ekki mjög mikill,“ segir Andreas Aðalsteinsson yfirmaður deildar stafrænna miðla hjá Sahara. „Það er ljóst að áhugi fyrir frama í stafrænni markaðssetningu er mikill en það er í takt við stafræna þróun í mörgum greinum atvinnulífsins, þar sem sífellt fleiri fyrirtæki og stofnanir leitast eftir að hámarka nýtingu sína á stafrænum miðlum.“

Konur áhugasamar um stafræna markaðssetningu

Námið í Sahara Academy er átta vikna skóli sem kennir jöfnum höndum fræðilega þekkingu og verklega færni í stafrænni markaðssetningu. Sahara setti skólann á fót því mikil vöntun er á starfsfólki með þessa tilteknu þekkingu, ekki síst praktíska færni í auglýsingakerfum miðla eins og Facebook, Instagram, Google og Youtube, á vinnumarkaði.

Markmið skólans er að útskrifaðir nemendur standi öðrum framar þegar það kemur að stafrænni þekkingu og verði því eftirsóknarverðir starfskraftar hjá til dæmis auglýsingastofum, almannatengslafyrirtækjum og markaðsdeildum fyrirtækja.

Eftir mikla yfirlegu var ákveðið að taka inn sjö nemendur, allt konur, en þær voru í miklum meirihluta umsækjenda.

„Þetta er í takt við það sem við höfum séð í umsóknum um störf hjá okkur undanfarin ár,“ segir Davíð Lúther Sigurðsson framkvæmdastjóri Sahara. „Kvenmenn virðast einfaldlega sýna markaðsmálum á stafrænum miðlum meiri áhuga en karlmenn.“