Bára Mjöll Þórðardóttir hefur verið ráðin forstöðumaður markaðsmála hjá Vodafone, en undir markaðsmál falla markaðs- samskipta- og efnishluti vefmála félagsins. Hún mun hefja störf hjá Vodafone á nýju ári.

Bára Mjöll kemur úr starfi á samskiptasviði Arion banka, þar sem hún hefur meðal annars sinnt fjárfesta- og almannatengslum, innri samskiptum og verkefnum tengdum samfélagsábyrgð. Hún vann um tíma sem verkefnastjóri á eignastýringarsviði Kaupþings en var þar áður markaðsstjóri S24 þar sem hún bar ábyrgð á öllu sem viðkom markaðsmálum fyrirtækisins.

Bára Mjöll er viðskiptafræðingur að mennt og hefur auk þess lokið námi í verðbréfamiðlun. Hún er gift Einari Karli Birgissyni og eiga þau þrjú börn.