Fjalllendið í kringum Eyjafjörð er aðeins nógu stórt fyrir þyrluskíðafyrirtæki, að mati Jökuls Bergmann, sem rekur þyrluskíðafyrirtækið Arctic Heli Skyiing í Skíðadal á Tröllaskaga. Fram kemur í viðtali við Jökul í Morgunblaðinu í dag að samkeppni muni leiða til þess að svæðið glati verðmæti sínu í augum þeirra sem eru tilbúnir til að borga töluvert fé til að geta skíðað niður ósnertar brekkur.

Fyrirtæki Jökuls hóf að bjóða upp á þyrluskíðaferðir árið 2008. Morgunblaðið segir að hins vegar muni samkeppnin brátt harðna en búið er að stofna fyrirtækið Viking Heliskiing sem hefur átt í viðræðum við Fjallabyggð um aðstöðu fyrir þyrluskíðaferðir. Rekstur þess á að hefjast í mars á næsta ári. Því til viðbótar hyggst Orri Vigfússon bjóða upp á þyrluskíðaferðir frá Deplum í Fljótunum um sumarið.