Við erum nú þegar inni í fjórum verslanakeðjum í Hong Kong,“ segir Valdís Fjölnisdóttir, framkvæmdastjóri Blámar. Valdís var meðal stofnenda fyrirtækisins árið 2015 en HB Grandi keypti félagið fyrir um hálfu ári. Fyrirtækið sérhæfir sig í að bjóða fyrsta flokks sjávarfang í handhægum umbúðum. Til að ná því markmiði notar fyrirtækið meðal annars svokallaðar „skin pack“ umbúðir, sem tryggja að súrefni kemst ekki inn í umbúðirnar. Fyrirtækið hefur undanfarin misseri aðallega beint kröftum sínum að Asíumarkaði.

„Það gengur mjög vel í Hong Kong og núna ætlum við að færa okkur yfir til Kína – beint inn á neytendamarkaðinn. Við hoppum þannig yfir marga milliliði,“ segir Valdís, en fyrirtækið selur nú þegar fisk í þrjár verslanakeðjur þar í landi til viðbótar við Hong Kong.

„Við pökkum öllu á Íslandi og fáum þannig verðmætasköpunina hingað heim. Það er líka svo dýrmætt því Kína er núna að berjast mikið við að matvæli séu ekki merkt rétt með tilliti til uppruna og fleiri hluta. Uppruni vöru er orðinn svo gríðarlega mikilvægur.“ Til að mæta þessum áskorunum ætlar fyrirtækið að setja QRkóða á hverja einustu pakkningu þannig að sá sem kaupir fiskinn getur séð nákvæmlega hvaðan hann kemur.

„Við ætlum að nýta okkur þetta einstaka rekjanleikakerfi sem Ísland hefur. Þannig geturðu rakið nákvæmlega hvaða leið fiskurinn fór frá Íslandi, hvar hann var geymdur og nánast í bátinn sem hann var veiddur,“ segir Valdís. „Kannski ekki alveg svo nákvæmlega en í það minnsta inn í landhelgi Íslands. Það er alveg gríðarlega mikilvægt.“

Íslenskur fiskur framandi í Kína

Valdís segir efnameiri Kínverja vilja gefa börnunum sínum það allra besta sem völ er á þegar kemur að matvælum, en flestir Kínverjar eiga eitt eða tvö börn. „Þar er horft á bæði öryggi og hollustu og er íslenskur fiskur númer eitt í þeim efnum og mörgum er sama hvað hann kostar. Millistéttin í Kína er með það mikið á milli handanna að þau geta keypt dýra vöru fyrir börnin sín. Fyrir mörgum er íslenskur fiskur framandi þannig að við höfum líka þurft að kenna fólki að matreiða hann. Ýsa, karfi og Atlantshafsþorskur eru ekki oft á boðstólum í Kína. Það er að koma upp ný kynslóð í Asíu sem vill þetta og þetta mun bara aukast og aukast. Það er líka ótrúlegt þegar maður kemur þarna að sjá hvað fólk þarf að fást við í verslunum þegar rangar merkingar eru annars vegar. Þess vegna hef ég trú á að upprunamerkingar séu framtíðin.“

Í samstarfi við Amazon Fresh

Til viðbótar við markaðssókn í Austurlöndum fjær er Blámar einnig í samstarfi við Amazon Fresh gegnum þriðja aðila. „Þar sendum við fisk með flugi frá Íslandi til Los Angeles sem er kominn heim til fólks daginn eftir gegnum Amazon Fresh. Núna erum við að senda ferskan og reyktan lax og þorsk. Síðar ætlum við að bæta við okkur fleiri tegundum, meðal annars bleikju.“

Valdís segir að þetta sé til marks um þróun sem er mun lengra komin í Bandaríkjunum og Kína en á Íslandi. „Það er allt að færast í vefverslun. Ég held að á meðan Skandinavar gera 10% til 20% af sínum kaupum á netinu er Kína í 50%. Vegna þessarar þróunar erum við líka komin inn í tvær netverslanir í Kína. Þá pantarðu mat og færð sent heim samdægurs.“ Sem stendur er Blámar aðeins í samstarfi við Amazon Fresh í Kaliforníu, en Valdís segir fyrirtækið stefna að því að útvíkka það samstarf í náinni framtíð. „Við viljum ekki vera alls staðar heldur viljum finna okkar hillu á ákveðnum mörkuðum. Kalifornía er alveg okkar markaður – fólk sem vill fá ferskan, íslenskan fisk beint inn á borð til sín. En það er auðvitað dýr vara.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .