Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, leggur til að tekjuháir skattleggi arðgreiðslur sínar eins og um tekjur sé að ræða. Við það hækkar skattaprósentan í ákveðnum tilvikum úr 15% í tæp 40%. Tillögurnar voru kynntar þegar Obama kynnti fjárlög næsta árs. Bandaríska dagblaðið Wall Street Journal segir markmið fjárlaganna að fjölga störfum og koma millistéttinni til hjálpar.

Ráðgjafafyrirtækið IFS Greining bendir á það í Morgunpósti sínum í dag að vestanhafs eru þeir einstaklingar skilgreindir sem tekjuháir sem eru með 200 þúsund dali í árslaun. Það jafngildir 24,6 milljónum króna á ári, tveimur milljónum króna á mánuði.

Þá segir IFS Greining í umfjöllun um frumvarpið sem Obama lagði fram að það innihaldi líka hækkun skattprósentu í hæsta skrattþrepi úr 35% í 39,6% á næsta ári. Fyrirtækið telur líkur á að frumvarpið eigi eftir að mæta mikilli andstöðu Repúblikana, sem hafa meirihluta í fulltrúadeild bandaríska þingsins.

Það gekk eftir en öldungadeildarþingmaðurinn Mitch McConnell segir í gagnrýni sinni á fjárlögin að í raun megi líta á þau sem lið í kosningabaráttu Obama.